Kraftlyftingar
kraft
Júlían J.K. Jóhannsson var rosalegur á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í Halmstad í Svíþjóð á sunnudaginn. Júlían bætti heimsmet í réttstöðulyftu ekki einu sinni heldur tvisvar.

Julian

Mynd/kraft.is


Réttstöðulyfta var síðasta grein mótsins en Júlían lyfti 360 kílóum í fyrstu lyftu. Í annarri lyftu reyndi Júlían við nýtt heimsmet, 398 kíló, sem hann fór auðveldlega upp.

Júlían var ekki hættur og reyndi næst við 405 kíló. Þau fóru einnig upp og bætti hann því heimsmetið aftur. Fyrra heimsmet var 397,5 kíló sem Bandaríkjamaðurinn Brad Gillingham setti árið 2011.

Júlían lyfti 410 kílóum í hnébeygju og 300 kílóum í bekkpressu. Samanlögð þyngd hans var því 1.115 kíló sem er bæting á hans besta árangri sem var 1.060 kíló. Árangurinn skilaði Júlían í 4. sæti mótsins en hann var aðeins 20 kílóum frá bronsi. Þetta annað árið hans í fullorðinsflokki og á því mörg ár eftir, það verður því virkilega spennandi að fylgjast með honum á næstu árum.

Rússinn Andrey Konovalov varð heimsmeistari. Konovalov lyfti alls 1.252,5 kílóum; 377,5 kílóum í bekkpressu, 475 kílóum í hnébeygju og 375 kílóum í réttstöðulyftu.