Kraftlyftingar
kraft

Föstudaginn 16. des. 2016 kl.16 ætla Kraftlyftingadeild og Lyftingadeild Ármanns sameiginlega að halda Jólamót Ármanns í alhliða lyftingum með nýstárlegum hætti í æfingasal félaganna í Djúpinu, Laugardalslaug. Keppt verður í 5 greinum, hnébeygju, bekkpressu, réttstöðulyftu, snörun og jafnhöttun karla og kvenna.

Leyfilegt er að keppa í einni grein, fleirum eða öllum eins og fólk kýs. Allir Ármenningar eru velkomnir, svo og gestir sem gætu hugsað sér að taka smá á því. Mótið verður óformlegt.Enginn pallur, engar umferðir og lyftarar prófa þær lyftur sem þeir vilja eins oft og þeir vilja þegar þeir eru tilbúnir. Mótið verður án búnaðar en ef einhver vafi leikur á eru notaðar reglur Kraft um klassískar kraftlyftingar (belti, hnjáhlífar og úlnliðsvafningar leyfðir).  

Verðlaun verða veitt fyrir besta árangur (Wilks/Sinclair) í hverri lyftu svo og í samanlögðu (5 lyftu súpertotal), í karla og kvennaflokki. Piparkökur, kaffi og kakó verða á boðstólum fyrir jólalyftara.

Komum öll og höfum gaman! Engin pressa, ekkert stress, mætum bara og bætum! Hafið samband við stjórnir deildanna ef þið hafið áhuga.

Helgi Briem,formaður Kraftlyftingadeildar
8592064, hbriem [at] gmail.com

Ekki óraði mig mig fyrir því þegar renglulegur 16 ára gutti vatt sér að mér á Íslandsmóti í kraftlyftingum 2009 og kynnti sig, að hann ætti eftir að verða einhver mesti afreksmaður Íslandssögunnar. Hann sagðist hafa spjallað við mig um kraftlyftingaþjálfun á Huga, íslenskum undanfara Facebook og slíkra félagsvefja og að ég hefði gefið sér ráðleggingar sem reyndust honum vel. Guttinn keppti þá í 90kg flokki og varð neðstur af 5 með 435kg samanlagt, en reyndar atti hann þá kappi við ýmsa öfluga keppnismenn. Þetta átti aldeilis eftir að breytast!

Stórir draumar

Júlían sagði mér að hann gæti hugsað sér að fara alla leið á toppinn og ég óskaði honum góðs gengis en átti ekki endilega von á miklu enda margir sem eiga sér stóra drauma sem aldrei rætast.

Næst þegar ég hitti kappann, strax um haustið sama ár, þá keppti hann í 110kg flokki og tölurnar voru aldeilis farnar að hækka í takt við líkamsþyngdina. Strax þá, eftir um árs þjálfun, lyfti hann 250 kílóum í réttstöðulyftu og 535 í samanlögðu og allir sem þekktu til sáu gjörla hversu mikið efni var þar á ferðinni. Herðarnar farnar að breikka og lærin að þykkna.

Skipulagsbreytingar

Þetta ár urðu miklar breytingar hjá Kraft, Kraftlyftingasambandi Íslands. Eftir 24 ára sjálfskipaða útlegð var samþykkt að sambandið myndi aftur ganga til liðs við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og að tekin yrðu upp lyfjapróf og að allir keppendur yrðu félagar í íþróttafélögum innan ÍSÍ. Júlían tók þátt í því ásamt mér, Maríu Guðsteinsdóttur, Ingimundi Björgvinssyni og fleirum að stofna Kraftlyftingadeild Ármanns og hefur hann keppt fyrir hennar hönd allar götur síðan og sinnt margvíslegum félagsstörfum og fleiru.

Grunnurinn lagður

Næstu árin hélt Júlían hinn ungi áfram að stækka og styrkjast. Hann tók þátt í hverju mótinu á fætur öðru og alltaf batnaði árangurinn. Fljótlega var hann farinn að keppa á alþjóðlegum mótum og gera góða hluti. Árið 2011 varð hann bæði Íslandsmeistari og Bikarmeistari í opnum flokki í fyrsta sinn og náði öðru sæti á Evrópumóti unglinga. Árið 2012 tók hann 4. sætið á Evrópumóti unglinga og 5. sætið á HM, en varð heimsmeistari unglinga í réttstöðulyftu. Réttstöðulyftan hefur yfirleitt verið hans sterkasta grein í gegnum tíðina eins og hjá fleiri íslenskum kraftlyftingaköppum. Árin 2013-14 keppti hann á öllum alþjóðlegum mótum og varð í 3-6. sæti en tölurnar fóru stöðugt hækkandi. Nokkrum sinnum lenti hann í því að gera ógilt, oftast í hnébeygju, og falla þá úr keppni. Það fékk þó ekkert á þennan járnharða ungling sem vakti hvarvetna athygli fyrir fádæma æfingahörku. Á tímabilum æfði hann allt að 11 sinnum á viku eða tvisvar á dag flesta daga sem er fáheyrt í þessari íþrótt.

Júlían var heppinn að geta lengst af æft með hinum góðkunna Auðunni Jónssyni, sigursælasta kraftlyftingamanni Íslands fyrr eða síðar og undir handleiðslu Grétars Hrafnssonar landsliðsþjálfara. Alla tíð hefur hann sýnt ótrúlega þrautseigju og reglusemi, aldrei misst úr æfingu (eða máltíð). Á þetta örugglega ekki lítinn þátt í velgengni hans ekki síður en fæðingarhæfileikar. Þessi eljusemi á við um allt sem hann tekur fyrir hendur, nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð og HÍ, störf við safnvörslu og síðast en ekki síst, sjálfboðaliðastörf fyrir kraftlyftingaíþróttina sjálfa þar sem hann hefur aldrei látið sitt eftir liggja.

Heimsmeistari í fyrsta sinn

Það var svo árið 2015 þegar ferillinn blómstraði eftir þrautseiga garðyrkju áranna á undan. Um vorið varð hann Íslandsmeistari með 970kg í samanlögðu. Á því móti gerði hann einnig atlögu að Íslandsmeti Auðuns Jónssonar í réttstöðulyftu og munaði aðeins hársbreidd að hann næði því. Í ágúst náði hann svo tveimur langþráðum áföngum, að verða heimsmeistari unglinga og að taka yfir tonn samanlagt (1012,5kg). Það ár var hann einnig valinn íþróttamaður Reykjavíkur.

Nýr vettvangur

 

Árið 2016 hélt hann svo áfram sigurgöngu sinni. Í janúar var honum boðið að taka þátt í RIG, Reykjavik International Games, opnu boðsmóti í klassískum kraftlyftingum. Þrátt fyrir að hafa aldrei fyrr keppt án búnaðar rúllaði hann mótinu upp og setti í leiðinni nýtt heimsmet unglinga í klassískri réttstöðulyftu, 342,5kg. Í apríl varð hann Evrópumeistari unglinga með 1050kg samanlagt og jafnaði í leiðinni Íslandsmet Auðuns í réttstöðu, 365kg. Hann varð svo Íslandsmeistari í opnum flokki eina ferðina enn í maí.

 

Heimsmeistari á ný!


Árið 2016 kórónaði hann svo með því að verja heimsmeistaratitil sinn í U23 flokki með 400kg í hnébeygju, tölu sem hafði verið draumurinn nokkuð lengi, 310kg í bekkpressu og 370kg í réttstöðulyftu, 1080kg samanlagt. Hann vann allar 3 greinarnar á mótinu auk þess að vinna titilinn. Auk þess eru bekkpressan, réttstöðulyftan og samanlagður árangur ný Íslandsmet í opnum flokki.

Júlían nýtur nú þeirrar stöðu að vera fremstur kraftlyftingamanna á Íslandi og nú þegar hann lýkur keppni í unglingaflokki og flyst yfir í opinn flokk er hann í 5-6. sæti á heimslistanum. Og ætlar sér meira! Það eitt er víst að með þessa hæfileika og þennan drifkraft eru honum allir vegir færir.

Helgi Briem

Formaður Kraftlyftingadeildar Ármanns

5. sept. 2016