Sund
armann sund

Sundhluti Reykjavík International Games (RIG) var haldinn í Laugardalslaug um helgina. 316 keppendur frá 27 sundfélögum voru skráðir til leiks og er þetta án efa sterkasta sundmót sem haldið er á Íslandi á árinu, allir bestu sundmenn Íslands auk verðlaunahafa frá Evrópu-, heims- og ólympíuleikum úr röðum erlendra keppenda. Erlendu liðin voru 13 og komu meðal annars frá Færeyjum og Grænlandi en einnig komu lið frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Tékklandi.


Þrettán krakkar frá Sunddeild Ármanns, ellefu stelpur og tveir strákar náðu lágmörkum fyrir mótið, sem voru sérstaklega ströng núna sökum stærðar mótsins. Gabriela, Kristina, Runólfur, Sólveig Ágústa og Svava Björg kepptu í opnum flokki en Hrafnhildur Lóa, Júlía, Katla Mist, Sigurður Haukur, Sunna, Ylfa Ásgerður, Ylfa Lind og Ziza kepptu í junior flokki, 14 ára og yngri. Ylfa Lind er önnur tveggja stelpna fæddar 2008 og samkvæmt okkar bestu upplýsingum yngsti keppandinn á mótinu.

Fyrir hvert einasta sundmót sem keppt er á setja sundmenn sér markmið, bæta tímana, ná lágmörkum fyrir ákveðin mót, til dæmis Íslandsmót, komast í úrslit á móti, topp tíu, komast í verðlaunasæti, vinna til gullverðlauna. Og við unnum fullt af svona litlum og stórum sigrum um helgina. Meðal annars syntu Runólfur og Svava Björg sig bæði inn í úrslit í opnum flokki og stelpurnar í júnior flokknum enduðu níu sinnum á verðlaunapalli.

Þá verður að minnast sérstaklega á glæsilega frammistöðu Ylfu Ásgerðar Eyjólfsdóttur. Hún vann til fimm gullverðlauna í sjö sundum og var ein af skærustu stjörnum mótsins. Mikil keppnismanneskja og alltaf glaðlynd og jákvæð. Frábær fyrirmynd fyrir alla okkar sundmenn.

Að lokum náðu þrír Ármenningar að bæta Ármannsmet á mótinu. Runólfur Þorláksson bætti Ármannsmet í 50m og 100m bringusundi. Svava Björg Lárusdóttir bætti Ármannsmetið í 200m flugsundi í stúlknaflokki (15-17) og Ylfa Lind Kristmannsdóttir bætti Ármannsmetin í 50m og 100m flugsundi og 50m skriðsundi í meyjaflokki (12 ára og yngri).

rvk mt

Pálmi á heiðurinn af því að týna til alla tíma og setja þá myndrænt fram svo við getum skoðað tímana í öllum sundum hjá öllum okkar keppendum.

Áfram Ármann