Sund
armann sund

jlfaraskipti

Eftir 15 ára starf sem yfirþjálfari Sunddeildar Ármanns mun Þuríður Einarsdóttir láta af störfum í lok þessa sundárs. Störf hennar þennan tíma hjá Ármanni verða seint fullþökkuð.

Ákveðið hefur verið að fá tvo þjálfara í stað Þuríðar, þau Hjalta Guðmundsson og Jóhönnu Iðu Halldórsdóttur, en þau eru þaulreyndir fyrrum sundmenn og þjálfarar með talsverða reynslu af þjálfun, bæði barna og afreksfólks í sundi.Hjalti verður yfirþjálfari og hefur umsjón með og sér um þjálfun eldri aldurshópa Ármanns. Hann gekk til liðs við Sunddeild Ármanns síðasta haust og hefur séð um þrekþjálfun fyrir Höfrunga og Hákarla, ásamt því að leysa yfirþjálfara af við sundþjálfun. Hann er með grunnstig ÍSÍ og A-stig SSÍ í sundþjálfun, hefur tekið námskeið í einkaþjálfun auk ýmissa annara námskeiða tengdum kennslu og er með master í verkfræði. Hjalti hefur kennt á sundnámskeiðum, þjálfað börn, unglinga og garpa auk þess sem hann hefur verið þrekþjálfari. Margir af þeim sundmönnum sem hann hefur þjálfað í sundi hafa verið á meðal þeirra bestu á landsvísu og orðið aldursflokkameistarar og margir af þeim sundmönnum sem hann þjálfaði í þreki voru aldursflokkameistarar, Íslandsmeistarar, í unglingalandsliðshópum eða í landsliðinu í sundi.

Hjalti var afrekssundmaður og veit hvað þarf til, til þess að ná árangri í sundíþróttinni. Hann var í bæði unglinga- og landsliðinu, átti aldursflokka- og Íslandsmet, vann til verðlauna á Norðurlandameistaramóti unglinga, alþjóðlegum sundmótum, Smáþjóðaleikum ásamt því að keppa á Evrópumeistaramótum í fullorðins- og unglingaflokki og Ólympíuleikunum.

Jóhanna mun hafa yfirumsjón með þjálfun yngstu aldurshópanna hjá Ármanni og Sundskóla Ármanns. Jóhanna hefur lokið grunnstigi þjálfaramenntunar hjá ÍSÍ og A, B, C stigum sundþjálfunar hjá SSÍ, auk þess sem hún er með réttindi sem sunddómari. Jóhanna er einnig með BA próf í iðjuþjálfunarafræði.

Hún þjálfaði hjá SH 1996-2004, en á þeim tíma unnust fjögur Aldursflokkameistaramót. Auk þess var hún yfirþjálfari hjá Sundfélaginu Huginn 1996, og þjálfari hjá Íþróttafélaginu Firði 2004-5. Hún hefur mikla reynslu af því að þjálfa börn og unglinga á aldrinum 3-15 ára, ásamt því að hafa skipulagt og þjálfað sund á sumarnámskeiðum fyrir börn í fjölda ára, auk þess sem hún var frukvöðull að sundnámskeiðum fyrir 3-4 ára aldur í Hafnarfirði.

Stjórn Sunddeildar Ármanns þakkar Þurý fyrir allt hennar starf fyrir Sunddeildina og býður nýja yfirþjálfara velkomna til starfa.

Sunddeild Ármanns væntir góðs af starfi þeirra og annarra þjálfara við að halda áfram með uppbyggingu starfs Sunddeildar Ármanns, í Laugardalslaug, Árbæjarlaug og Sundhöll Reykjavíkur. Sunddeild Ármanns býður uppá ungbarnasund, sundskóla og sundþjálfun fyrir börn, ásamt því að vera með sundpóló.