Sund
mynd heimasur samanSundkona Ármanns árið 2021 er Katla Mist Bragadóttir

Katla er ung og glæsileg fyrirmynd fyrir aðra íþróttamenn. Það er mikill kraftur og seigla í henni, hún æfir af dugnaði og áhugasemi og er ávallt með jákvætt hugarfar.

Á fyrri hluta árs stóð Katla sig vel á Reykjavik International Games, bætti sína persónulegu tíma og komst í úrslit í öllum sínum keppnisgreinum. Á Íslandsmeistaramótinu í 50 m laug gekk Kötlu vel og synti hún sig til úrslita í 100 og 200 m bringu og bætti sig í öllum greinum. Á Reykjavíkurmeistaramótinu hélt hún áfram að bæta sig og vann til 8 verðlauna, þar af gullverðlaun í 100 og 200 m bringusundi.

Síðastliðið sumar keppti Katla á Aldursflokkameistaramóti Íslands, bætingarnar héldu áfram og Katla varð Íslandsmeistari í telpnaflokki í 100 m bringusundi og endaði í öðru sæti í 200 m bringu og 400 m fjórsundi.  

Í haust synti Katla á Extramóti SH og hélt þar áfram að bæta sig og vinna til verðlauna. Hún var í 7. sæti yfir verðlaunahæðstu keppendur mótsins, þar af gullverðlaun í 100 m og 200 m bringusundi og 200 m fjórsundi. Þegar það kom að Íslandsmeistaramótinu í 25 m laug og stóð Katla sig afburða vel, var í 2. sæti í 100 m bringu, 3. sæti í 200 m bringu og 3. sæti í 400 m fjórsundi. Á mótinu synti Katla sig inní Unglingalandsliðið og mun fara í æfingabúðir og mót erlendis á næsta ári með Unglingalandsliðinu. Fyrr á árinu náði hún lágmörkum í afrekshóp ÍSÍ og hefur verið að taka þátt í verkefnum á vegum SSÍ á þessu ári.

Á árinu er Katla búin að slá yfir 20 Ármannsmet í telpnaflokki (13.-14. ára), stúlknaflokki (15.-17. ára) og kvennaflokki og er hraðasta sundkona Ármanns frá upphafi í 100 og 200 m bringusundi þrátt fyrir að vera einungis í telpnaflokki.

Katla er búin að standa sig frábærlega á árinu og erum við í sunddeildinni afar stolt af henni og hennar árangri.

Katla

Efnilegasti sundmaður Ármanns árið 2021 er sundkonan Ylfa Lind Kristmannsdóttir

Ylfa Lind er ung og ein af efnilegustu sundkonum á Íslandi í dag í sínum aldurshóp. Ylfa er með gott keppnisskap og hefur sýnt miklar framfarir á árinu sem er að líða. Hún hefur sett sér háleit markmið og stundar sínar æfingar af dugnaði og kappsemi. Á árinu náði Ylfa lágmörkum í nokkrum greinum í framtíðarhóp Sundsambands Íslands og hefur tekið þátt í verkefnum hópsins.

Á Reykjavik International Games hafnaði Ylfa í 3. sæti í opnum flokki (fullorðnir) í 100 m flugsundi sem er frábær árangur þar sem hún er á yngra ári í telpnaflokki 13-14 ára. Á mótinu synti hún einnig til úrslita í 200 m flugsundi. Á aldursflokkameistarameistaramóti Íslands vann Ylfa til verðlauna í 200 m flugsundi þar sem hún kom 3. í mark og var framarlega í þeim greinum sem hún synti í þrátt fyrir að hafa slasast stuttu fyrir mótið.

Einn af hápunktum ársins var 50 m flugsund á Íslandmeistaramótinu í 50 m laug í opnum flokki, þar náði Ylfa 2. sæti og bætti Íslandsmetið í sínum aldursflokki þrátt fyrir að vera á yngra ári í flokknum. Þess ber einnig að geta að á síðasta ári bætti Ylfa Íslandsmetið í 50 m flugsundi í aldurflokknum sem hún var í þá, þ.e.a.s. í flokki 11-12 ára. Í lok ársins synti hún einnig undir gildandi Íslandsmeti í 200 metra flugsundi frá árinu 2007 þrátt fyrir að hafa verið búin að vera í æfingabanni vegna Covid-19. Ylfa fékk metið ekki gilt vegna opinbers keppnisbanns sem stóð yfir á þeim tíma hjá ÍSÍ vegna covid-19. Að auki var hún aðeins 6 hundraðshlutum frá metinu í 100 m flugsundi en það met var búið að standa síðan 1993. Þegar keppnisbanninu lauk var Ylfa komin upp um flokk og synti þá undir tímanum á fyrri hluta árs. Það verður mjög spennandi að fylgjast með árangri Ylfu á næsta ári þegar hún verður aftur komin á eldra ár í sínum aldurflokki.

Ylfa stóð sig vel á Íslandsmeistaramótinu í 25 m laug í opnum flokki og var stutt frá því að vinna til verðlaunan í 50 m flugsundi og kom þar 4. í mark. Einnig stórbætti Ylfa sig í 50 m skriðsundi. Á síðasta ári hefur Ylfa slegið mörg Ármannsmet og sum þeirra marg oft. Það er gaman að taka það fram að Ylfa Lind er komin niður á 1:00,12 í 100 metra skriðsundi sem er mjög góður árangur miðað við aldur og er þvi stutt frá því að brjóta mínútu múrinn.

Ylfa hefur staðið sig sérstaklega glæsilega á síðustu tveimur árum og erum við í sunddeildinni mjög stolt af henni.

ylfa