Stofnaður 11.október 2008

Afrekssjóður

Afrekssjóður Ármanns var stofnaður 11.október 2008, þegar haldið var upp á 120 ára afmæli félagsins.

1.gr. Skipan
Í nefnd afrekssjóðs Ármanns sitja 3 einstaklingar skipaðir af aðalstjórn Ármanns. Í nefndinni sitja stjórnarmenn úr aðalstjórn og íþróttafulltrúi Ármanns. Stjórnin situr tvö ár í senn. Sjóðurinn skal hafa sér bankareikning, sem gjaldkeri afrekssjóðs hefur aðgang að, stofnaður af gjaldkera Aðalstjórnar Ármanns. Fundagerðum skal skilað til aðalstjórnar.

2.gr. Verksvið
Verkefni nefndar er að tilnefna styrkhafa, ákvarða styrkveitingar, hefur eftirlit með nýtingu styrkveitinga, sér um fjáröflun og kynningarstarfsemi sjóðsins.

3.gr. Fjármögnun
i. Afrekssjóður Ármanns fær 10% af lottótekjum félagsins. Samþykkt af Aðalstjórn 4.11.2008.
ii. Ágóði af sölu á dvd geisladisk, myndasýning úr starfi frá ýmsum deildum Ármanns og frá 120 ára afmæli Glímufélags Ármanns, rennur til sjóðsins.
iii. Frjáls framlög og söfnunarfé.
iv. Styrktaraðilar. Sérstakan samning skal gera við styrktaraðila sjóðsins.

4.gr. Markmið
Markmið sjóðsins er að veita afreksíþróttafólki í Ármanni, 15 ára og eldri, fjárhagslegan styrk vegna æfinga og/eða keppni og búa þeim þannig betri aðstöðu til að stunda íþrótt sína. (Undanþágur frá aldri s.s. fimleikaiðkendur).

5.gr. Úthlutun - skilyrði
Aðeins íþróttamenn sem iðka íþrótt sína innan deilda Ármanns geta sótt um styrkveitingar í sjóðinn. Væntanlegur styrkþegi í einstaklingsíþróttum þarf m.a. að vera í fremstu röð á Lands- og bikarmótum eða öðrum sambærilegum mótum og helst að vera í landsliðsúrtaki í sínum aldursflokki t.d. á evrópumeistara-, heimsmeistaramót eða Ólympíuleika og/eða glímir við og á raunhæfa möguleika að ná lágmörkum á slík mót. Einnig verður tekið mið af lágmörkum einstakra sérsambanda, (líkt og t.d. FRÍ, SKÍ er með,) til að gæta jafnræðis og jafnvægis í vali einstaklinga. Iðkandi í hópíþrótt þarf a.m.k. að vera í æfingahópi meistaraflokks og helst að vera í landsliðsúrtaki í sínum aldursflokki.

Tekið er mið af eftirfarandi;
a) Hvaða æfinga- og keppnisferðir voru farnar á árinu
b)Árangri á innlendum og erlendum vettvangi
c)Staða íþróttamanns / liðs á alþjóðlegum lista sinnar íþróttagreinar
d)Unnum titlum í íþróttum á árinu
e)Heildarkostnaður vegna æfinga- og keppnisferða á árinu

6.gr. Umsóknir um styrki
Auglýst verður eftir umsóknum um styrki 1. nóvember ár hvert. Umsóknir skulu berast afrekssjóðsnefnd fyrir 1.desember, á þar til gerðum eyðublöðum, sem fást á skrifstofu Ármanns í Laugabóli og hér.

Umsóknir um styrki:
a) Vegna einstaklinga skulu vera í nafni viðkomandi íþróttamanns.
b) Vegna hópíþrótta skulu vera í nafni viðkomandi íþróttaflokks/-hóps.
c) Skulu vera staðfestar af formanni deildarinnar.

Með umsóknum skulu fylgja:
1. Upplýsingar um íþróttamanninn/hópinn
2. Umsögn um íþróttamanninn/hópinn frá þjálfara.
3. Í umsókn þarf eftirfarandi að koma fram:
- Hvaða æfinga- og keppnisferðir voru farnar á árinu.
- Árangur á innlendum og erlendum vettvangi þessa árs.
- Staða íþróttamanns/liðs á alþjóðlegum lista sinnar íþróttagreinar.
- Unnir titlar á árinu.
4. Heildarkostnaður vegna æfinga- og keppnisferða þessa árs.

Nefnd afrekssjóðs skal svara skriflega öllum umsóknum sem berast.
Nefndinni er heimilt að hafa frumkvæði að einstökum styrkveitingum.

Nefndin áskilur sér rétt til að afla sér nánari upplýsinga til þeirra sem fram koma á umsóknareyðublaði og leita umsagnar annarra aðila.

Styrkveitingar, sem nefndin ákveður, skulu bornar undir aðalstjórn Ármanns til staðfestingar.

Aðalstjórn Ármanns afhendir styrk- og styrksloforð úr Afrekssjóði til styrkhafa á afmæli Glímufélags Ármanns, 15.desember.

7.gr. Greiðsla styrkja
Styrkir greiðast þann 15.desember. Styrksupphæðir miðast við fjármagnsgetu sjóðsins hverju sinni.

8.gr. Skyldur styrkþega
Allir þeir íþróttamenn sem þiggja styrk úr afrekssjóði Ármanns skulu hlíta þeim reglum sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit, svo og þeim almennu siða- og agareglum sem gilda um framkomu íþróttamanna innan vallar sem utan.

9.gr. Varsla afrekssjóðs
Vörslu og reikningshald sjóðsins annast gjaldkeri sjóðsins. Endurskoðaða reikninga sjóðsins skal birta árlega með reikningum Aðalstjórnar Ármanns.

10.gr. Gildistími
Starfsreglur þessar tóku gildi við samþykkt Aðalstjórnar Glímufélags Ármanns 25.nóvember 2008.

11. gr. Kynningarmál
Auglýsa skal eftir umsóknum í sjóðinn til stjórna allra deilda Ármanns. Auk þess skulu upplýsingar um sjóðinn allajafna vera á heimsíðu Glímufélags Ármanns. Íþróttafulltrúi Glímufélags Ármanns mun sjá um að koma tilkynningu til fjölmiðla um úthlutanir úr sjóðnum sem og annað fréttnæmt tengt honum. Að gefnu samþykki þeirra íþróttamanna sem sjóðurinn styrkir og eftir atvikum foreldra þeirra, getur Stjórn Glímufélags Ármanns nýtt sér krafta þeirra til ýmissa kynningarmála.

Glímufélag Ármanns

Glímufélagið Ármann

Íþróttamiðstöðin Laugaból
Engjavegur 7, 104 Reykjavík
armann@armenningar.is
Sími: 412 7400

Kennitala: 420169-0359
VSK Númer: 22951

Flýtileiðir
Félagið
Fylgstu með