Bikarmeistaramót í bekkpressu 2023

Laugardaginn 12. ágúst héldum við Ármenningar Bikarmeistaramót í bekkpressu á vegum Kraftlyftingasambands Íslands. Þar sem aðstaða okkar er ekki lögleg fyrir mótahald þurftum við nú sem fyrr að fá inni annars staðar. Að þessu sinni fór mótið fram í íþróttahúsi Fellaskóla.

Það er mikil vinna að halda lyftingamót og komu margar hendur að þessu verki. Félagar okkar í Kraftlyftingadeild Breiðabliks lánuðu okkur allan búnað á mótið en Blikar eru svo heppnir að vera með húsnæði á jarðhæð sem auðveldar allan flutning og affermingu búnaðar. Við sendum þeim góðar þakkir fyrir lánið.

Hópur iðkenda lyftingadeildarinnar sá um að setja upp mótið og var mótahald til fyrirmyndar. Kærar þakkir til þeirra sem lögðu hönd á plóginn svo þetta gæti orðið að veruleika.

Á mótið voru skráðir 37 keppendur. Keppt var bæði í klassískri bekkpressu og bekkpressu í búnaði. 34 kepptu í klassískri bekkpressu og 3 í búnaði.

Við Ármenningar áttum átta keppendur sem allir áttu flott mót. Fjórir Ármenningar kepptu á sínu fyrsta móti og sex keppendanna eru í unglingaflokki. 

Jón Sigurður Gunnarsson (Nonni)  tvíbætti eigið Íslandsmet í -59 kg flokki karla. Fyrst lyfti hann 110 kg og bætti þar eigið met um 5 kg, síðan bætti hann um betur og lyfti 115 kg, heildarbæting á eigin Íslandsmeti um 10 kg. Til hamingju með það Nonni.

 

Heildarúrslit Lyftingadeildar Ármanns

Rakel Sara Þórisdóttir (´08) varð í 3.sæti í -69 kg flokki með 50 kg.

Valgerður Sigfinnsdóttir (´93) varð í 1.sæti í -84 kg flokki með 90 kg.

Jón Sigurður Gunnarsson (´92) varð í 1.sæti í -59 kg flokki með 115 kg.

Snorri Steinn Ingólfsson (´04) varð í 2. sæti í -83 kg flokki með 100 kg.

Kristófer Máni Sveinsson (´06) varð í 3.sæti í -83 kg flokki með 90 kg.

Hjörtur Jónas Klemensson (´05) varð í 4.sæti í -83 kg flokki með 80 kg.

Ívar Máni Hrannarsson (´05) varð í 5.sæti í -83 kg flokki með 75 kg.

Gunnar Pálmi Snorrason (´05) varð í 5.sæti í -120 kg flokki með 115 kg.

 

Ármann varð stigahæsta lið mótsins. Það verður að teljast gott miðað við að  aðstaða iðkenda lyftingadeildar Ármanns er með versta móti en liðið æfir í ólöglegum lagnagangi í Laugardal. Brýnt er að Ármann bæti úr aðstöðumálum lyftingadeildarinnar svo við getum verið samkeppnishæf við önnur félög á höfuðborgarsvæðinu og missum ekki unga og upprennandi iðkendur.

En Lyftingadeild Ármanns ber þó höfuðið hátt og er stolt af sínu fólki. 

 

Til hamingju keppendur með frábæran árangur og til hamingju Lyftingadeild Ármanns með glæsilegt mót.

Meðfylgjandi eru myndir frá mótinu

https://photos.app.goo.gl/J9zVLnN9Z8eiofeQ7

 

 

Til baka
Glímufélagið Ármann

Íþróttamiðstöðin Laugaból
Engjavegur 7, 104 Reykjavík
armann@armenningar.is
Sími: 412 7400

Kennitala: 420169-0359
VSK Númer: 22951

Flýtileiðir
Félagið
Fylgstu með