Það er óhætt að segja að tímabilið hafi farið vel af stað í Laugardalnum í kvöld. Meistaraflokkar Ármanns léku opnunarleiki í 1. deildunum. Skemmst er frá því að segja að bæði lið náðu í góða sigra og líta vel út í byrjun tímabils.

Fyrri leikurinn var í 1. deild kvenna á milli Ármanns og Selfoss. Selfyssingar að tefla fram kvennaliði í fyrsta sinn í mörg ár. Frábært hjá Selfyssingum að taka slaginn í 1. deildinni í vetur og það er nær öruggt að þetta verður körfuboltanum til framdráttar.

Fyrirfram var búist við að þetta yrði leikur kattarins að músinni enda Ármanni spáð í toppbaráttu og Selfossi í botnbaráttu. Leikurinn byrjaði eins og við var búist með sterkum leik Ármanns en Selfoss lét ekki vaða yfir sig og svöruðu reglulega með flottum körfum. Þær náðu að halda ágætlega í við Ármann framan af leik en það dró þó stöðugt í sundur og munurinn jókst jafnt og þétt. 

Leikurinn endaði með öruggum sigri heimakvenna í Ármanni. Lokatölur 90-53.

Jónína Þórdís Karlsdóttir og Fanney Ragnarsdóttir voru atkvæðamestar hjá Ármanni í þessum leik. Jónína var með 21 stig, 17 fráköst og 9 stoðsendingar sem skiluðu 44 framlagsstigum í leiknum. Fanney var stigahæst með 24 stig og hitti úr 11 af 17 skotum sínum í leiknum. Allir leikmenn Ármanns áttu annars fínan dag. Það verður gaman að fylgjast með þessu liði í 1. deildinni í vetur.

Jónína og Fanney áttu góðan leik

Hjá Selfossi var Eva Rún Dagsdóttir stigaæst með 14 stig. Selfossliðið spilaði flottan bolta á köflum og munu fá góða reynslu í 1. deildinni í vetur.

 

Seinni leikur kvöldins var öllu meira spennandi. Þar mættust Ármann og Skallagrímur.  Liðunum var spáð svipuðu gengi í efri hluta deildarinnar fyrir tímabilið. Það kom snemma í ljós að spárnar gætu ræst því gæði beggja liða voru mikil og liðin skiptust á flottum körfum allan leikinn. Það varð aldrei mikill munur í þessum leik og liðin skiptust reglulega á að hafa forystuna.

Á lokakaflanum náðu Ármenningar að síga fram úr og halda forystunni til enda. Lokatölur 99-94.

Arnaldur Grímsson

Arnaldur Grímsson átti stórleik fyrir Ármann. Hann var mjög áræðinn þegar hann var inná vellinum, hitti vel og kom sér oft á vítalínuna. Hann endaði með 30 stig og 11 fráköst á aðeins 26 mínútum. Villuvandræði héldu honum á bekknum stóran hluta leiksins en hann hefði eflaust rofið 40 stiga múrinn ef hann hefði getað spilað meira. 

Adama Darboe stýrði liðinu mjög vel í gegnum leikinn og ljóst að þar er reyndur leikmaður á ferð. Hann endaði með 16 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Cedric Bowen var með 19 stig og 12 fráköst og Alfonso Birgir var með 10 stig 7 stoðsendingar og 6 fráköst.

Það var gaman að sjá unga leikmenn spila stór hlutverk í báðum liðum. Frosti Valgarðsson og Kári Kaldal (fæddir 2007) léku vel í stórum hlutverkum hjá Ármanni og Jakob Leifur (2006) átti líka frábæra innkomu.

Hjá Skallagrím var Eiríkur Frímann Jónsson næst stigahæstur með 19 stig og Sævar Alexander Pálmason átti flotta innkomu. Báðir eru þeir fæddir 2007.

Lið Skallagríms spilaði flottan körfubolta og ljóst að þeir verða sterkir í vetur. Það sama má líka segja um Ármenninga sem eru með mjög spennandi hóp af gæðaleikmönnum.

Mæting á báða leikina var góð í kvöld og fengu áhorfendur frábæra skemmtun. Í hálfleik á fyrri leiknum voru stelpurnar í 3.-4. bekk með glæsilega sýningu þar sem þær sýndu listir sínar með körfuboltann. Ungir iðkendur Ármanns voru dugleg á trommunum og stemningin í Höllinni skemmtileg. Spennandi vetur framundan hjá okkur.

Til baka
Glímufélagið Ármann

Íþróttamiðstöðin Laugaból
Engjavegur 7, 104 Reykjavík
armann@armenningar.is
Sími: 412 7400

Kennitala: 420169-0359
VSK Númer: 22951

Flýtileiðir
Félagið
Fylgstu með