Árleg afmælishátíð Ármanns var haldin þann 11. desember síðastliðinn en félagið er nú orðið 134 ára gamalt.  Afmæli félagsins er jafnan vettvangur til að afhenda íþróttamönnum allra deilda viðurkenningar, úthluta styrkjum úr afrekssjóði og veita þeim sem starfa fyrir félagið á ýmsum vettvangi heiðursmerki.  Að þessu sinni fengu þrír úr taekwondodeildinni heiðursmerki.  Dagbjört Rúnarsdóttir og Þórarinn Grettir Einarsson fengu afhent silfurmerki og Eyþór Atli Reynisson fékk afhent bronsmerki.  Hafa þau öll komið að ýmsum störfum fyrir deildina til fjölda ára sem stjórnarmenn, sjálfboðaliðar, þjálfarar og iðkendur. 

Eyþór Atli Reynisson var valinn taekwondomaður ársins í Ármann.

Eyþór Atli hefur stundað taekwondo frá unga aldri og unnið til fjölmargra verðlauna í íþróttinni bæði hérlendis og erlendis. Einnig sinnir hann þjálfun bæði yngri og eldri hópa af mikilli fagmennsku og eljusemi og er vel liðinn sem þjálfari af iðkendum á öllum aldri. Eyþór Atli er í landsliði taekwondo í poomsae (form). Hann er mikill keppnismaður og hefur keppt bæði á bikarmótum ársins og Íslandsmeistaramóti þar sem hann hefur sópað að sér verðlaunum. Á bikarmóti stóð hann uppi með gullverðlaun í poomsae, bæði í einstaklingskeppni og parakeppni, og með bronsverðlaun í hópakeppni. Á Íslandsmeistaramótinu hlaut hann sömuleiðis gullverðlaun í poomsae, bæði í einstaklings- og parakeppni, og var með hæstu einkunnina á mótinu. Eyþór Atli fór einnig á Norðurlandamót á árinu, bæði sem keppandi og einnig sem þjálfari fyrir nokkur félög. Hann stóð sig þar með prýði þótt hann kæmist ekki á pall að þessu sinni.  Keppnisárinu lauk hann svo með þátttöku í æfingabúðum og móti í Rödovre í Danmörku nú í nóvember þar sem hann varð í þriðja sæti.

Pétur Valur Thors var valinn efnilegasti taekwondomaður Ármanns.

Pétur Valur er 14 ára og hefur stundað taekwondo af krafti frá sjö ára aldri. Hann hefur jafnframt sinnt aðstoðarþjálfun hjá yngri hópum síðastliðin tvö ár. Pétur Valur er í landsliði taekwondo í poomsae (form), hefur mætt á allar landsliðsæfingar og sinnt því af miklum áhuga. Pétur Valur hefur tekið þátt í öllu sem hefur verið í boði tengt taekwondo, bæði mótum og æfingum. Hann er Íslandsmeistari í einstaklingskeppni poomsae í sínum flokki (cadet) annað árið í röð. Einnig vann hann til gullverðlauna í poomsae einstaklingskeppni á bikarmóti TKÍ í febrúar. Pétur Valur fór á sitt fyrsta erlenda mót á árinu þegar hann tók þátt á Norðurlandamóti í taekwondo sem haldið var í Borlänge í Svíþjóð og stóð sig þar mjög vel þó að hann ynni ekki til verðlauna. Nú í nóvember fór hann á Poomsae Synergy Seminar í Rödovre í Danmörku og tók þátt í móti í lokin þar sem hann vann sinn flokk.

 

Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með verðskuldaðar viðurkenningar.

Til baka
Glímufélagið Ármann

Íþróttamiðstöðin Laugaból
Engjavegur 7, 104 Reykjavík
armann@armenningar.is
Sími: 412 7400

Kennitala: 420169-0359
VSK Númer: 22951

Flýtileiðir
Félagið
Fylgstu með